Blush Fantasíudeildin snerist öll um unað og leikgleði. Í herferðinni var leikið með hugmyndina um fantasíudeildir sem margir þekkja úr fótboltaheiminum, en í stað leikmanna gátu viðskiptavinir Blush stillt sínum uppáhalds unaðstækjum upp í fantasíulið á heimasíðu verslunarinnar. Fantasíubox Blush var aðalvara herferðarinnar en í því mátti finna mikilvægustu „leikmenn“ fantasíudeildarinnar ásamt bleikri fótboltatreyju, trefli fyrir stuðningsmenn og flautu fyrir dómarann, allt hannað fyrir fjölbreytta hlutverkaleiki innblásna af boltanum.
Langstærsti kúnni Blush eru konur á meðan stærsti áhorfendahópur Enska boltans eru karlar. Ákveðið var að sækja karlana úr boltanum og yfir í svefnherbergið með innblæstri úr íþróttaheiminum í efninu sjálfu. Meginmarkmiðið var að fá fólk til að hugsa um sínar eigin fantasíur og prófa nýja leiki á svefnherbergisvellinum.
Útlit herferðarinnar hélt áfram að endurspegla bleikt yfirbragð Blush. Innblástur var sóttur í vinsæl fótboltaspjöld sem margir áhugasamir safnarar hafa átt í gegnum árin, en í stað heimsþekktra fótboltastjarna sem jafnan prýða slík spjöld voru unaðstæki Blush sett í hlutverk aðalleikmanna. Textinn gegndi jafnframt lykilhlutverki, þar sem leikið var með kunnugleg hugtök úr fótboltaheiminum og þau tengd við unaðstæki Blush. Útkoman var herferð full af skemmtilegri tvíræðni þar sem heimar fótbolta og unaðar mættust á miðjum velli.
Markið er ekki eini staðurinn til að skora.
Hinn þjóðþekkti íþróttafréttamaður og lýsandi Höddi Magg lánaði sína einstöku rödd til að lýsa alvöru frammistöðu á svefnherbergisvellinum.
Mikilvægustu leikmenn fantasíudeildarinnar leyndust í Fantasíuboxi Blush, ásamt bleikri fótboltatreyju og trefli til að hita vel upp fyrir leikinn.

